Geta ekki setið hljóð hjá

Kim Kardashian West.
Kim Kardashian West. AFP

Kim Kardashian West og tugir annarra þekktra einstaklinga hafa tekið höndum saman og ætla að halda sig fjarri samfélagsmiðlum í dag. Með þessu vilja þau mótmæla dreifingu hatursorðræðu, áróðri og upplýsingaóreiðu.

„Að dreifa upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum hefur alvarleg áhrif,“ skrifar Kardashian West í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær. Aðgerðirnar eru hluti af herferðinni #StopHateforProfit og er skipulögð af aðgerðasinnum varðandi borgaraleg réttindi. Stjörnurnar ætla að frysta samfélagsmiðla-reikninga sína í sólarhring. „Ég get ekki setið hljóð hjá á meðan þessir miðlar halda áfram að leyfa dreifingu hatri, áróðri og upplýsingaóreiðu – búið til af hópum sem vilja sá sundrungu og skipta Bandaríkjunum upp,“ segir Kardashian West.

„Upplýsingaóreiða sem er dreift á samfélagsmiðlum hefur alvarleg áhrif á kosningar okkar og grefur undan lýðræði okkar,“ bætir hún við samkvæmt frétt BBC.

Meðal þeirra sem taka þátt í aðgerðunum eru Leonardo DiCaprio, Sacha Baron Cohen og Jennifer Lawrence sem og Katy Perry.

Perry skrifar á Instagram að hún geti ekki látið það afskiptalaust að stjórnendur samfélagsmiðla snúi blinda auganu að færslum þar sem hatri og upplýsingaóreiðu er dreift. Leikarinn Ashton Kutcher, sem hefur milljónir fylgjenda, tekur einnig þátt og segir að þessir miðlar hafi ekki verið gerðir til þess að dreifa hatri og ofbeldi.

AFP

Stofnað var til herferðarinnar #StopHateforProfit campaign í júní en þar eru samfélagsmiðlarnir Facebook og Instagram sakaðir um að gera ekki nóg til að stöðva hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu.

Auglýsingatekjur Facebook, sem á einnig Instagram og WhatsApp, námu á síðasta ári tæpum 70 milljörðum bandaríkjadala. Það svarar til 9.500 milljarða króna.

Þúsundir fyrirtækja og helstu mannréttindasamtök, þar á meðal National Association for the Advancement of Colored People (NAACP) og Anti-Defamation League (AD), taka þátt í herferðinni. 

mbl.is