Rannsaka Bolton vegna ummæla um Trump

John Bolton (t.h.) fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hlýðir hér á forsetann …
John Bolton (t.h.) fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hlýðir hér á forsetann tjá sig á blaðamannafundi með erlendum þjóðhöfðingja. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur hafið rannsókn á John Bolton, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, vegna þess að hann hafi mögulega birt leynilegar upplýsingar í endurminningabók sinni sem hann gaf út í júní. 

Trump hafði áður krafist þess að útgáfa bókarinnar yrði stöðvuð. Alríkisdómari hafnaði þeirri beiðni. 

Bolton neitar öllum sakargiftum. 

Í bókinni er Trump lýst sem forseta sem er fáfróður um landfræðilegar staðreyndir. 

Segir rannsóknina tengda kosningum

Bolton, sem starfaði sem öryggisráðgjafi Trumps frá árinu 2018 til 2019, vill meina að ákvörðun Trumps um að fyrirskipa rannsókn á Bolton sé keyrð áfram af vilja hans til að ná endurkjöri. Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram í nóvember. 

Þegar bókin var gefin út lýsti Trump því yfir að hann vildi að Bolton yrði lögsóttur og lýsti öryggisráðgjafanum fyrrverandi sem „verulega vanhæfum“ og „lygara“.

Bolton hefur alltaf haldið því fram að handrit bókarinnar hafi komist í gegnum skoðun þjóðaröryggisráðgjafa. Aðrir hafa þó sagt að slík skoðun hafi ekki verið kláruð fyrir útgáfu bókarinar. 

Margt af því sem Bolton setti fram í bókinni er byggt á einkasamtölum og er ómögulegt að staðfesta það. Á meðal þess sem Bolton skrifaði í bókina var að Trump hefði leitað aðstoðar forseta Kína til að vinna forsetakosningarnar í ár. Í þeirri beiðni sinni hafi hann lagt áherslu á það hve mikilvægt endurkjör hans væri kínverskum bændum. Þá hafi Trump einnig sagt að uppbygging fangabúða vegna fjöldafang­els­un­ar Uyg­h­ur-múslima væri „ná­kvæm­lega það rétta að gera“.

Þá sagði í bók Boltons að Trump hefði spurt ráðgjafa hvort Finnland væri hluti af Rússlandi. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert