Biden varar Breta við

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata.
Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata. AFP

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, sagði í gær að hann muni ekki leyfa friði á Norður-Írlandi að verða „fyrir barðinu á Brexit“ verði hann kosinn forseti Bandaríkjanna í nóvember. BBC greinir frá þessu.

Biden sagði að allir viðskiptasamningar Bandaríkjanna og Bretlands yrðu að vera háðir því að samkomulag sem kennt er við föstudaginn langa væri virt. Umrætt samkomulag samanstendur af nokkrum samþykktum sem undirritað var af írskum og breskum stjórnvöldum þann 10. apríl 1998. Það batt endi á ofbeldi í Norður-Írlandi sem átti rætur sínar í pólitískum deilum og hafði staðið yfir frá árinu 1960. 

Pompeo treystir Bretum

Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, hefur undanfarið reynt að fullvissa bandaríska stjórnmálamenn um ágæti nýjustu vendinga í Brexit. 

Mike Pompeo og Dominic Raab ræða saman á fundi í …
Mike Pompeo og Dominic Raab ræða saman á fundi í gær. AFP

Mike Pompeo, bandaríski kollegi Raabs, segist treysta Bretum að ganga rétt frá Brexit. 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði engar líkur á því að viðskiptasamningur Bretlands og Bandaríkjanna kæmist í gegnum Bandaríkjaþing ef Bretar brytu í bága við alþjóðasamninga og græfu undan föstudeginum langa. 

Eftir fund með Raab sagði Pelosi að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu yrði ekki leyft að ógna friði á Norður-Írlandi. 

Nancy Pelosi er á meðal þeirra sem hafa áhyggjur af …
Nancy Pelosi er á meðal þeirra sem hafa áhyggjur af þróuninni. AFP

Brjóta í bága við alþjóðalög

Brexit er ofarlega á baugi á fundum Raab með bandarískum stjórnmálamönnum eftir að umdeilt frumvarp var samþykkt í neðri deild breska þingsins á þriðjudag. Það fel­ur í sér að ekki verður tekið til­lit til ákveðinna hluta Brex­it-samn­ings Breta við Evr­ópu­sam­bandið.

Fyrirhuguð lög myndu veita breskum stjórnvöldum vald til að hnekkja hluta af Brexit-samningnum sem Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, samþykkti í október síðastliðnum. 

Umrædd lög standa nú frammi fyrir frekari athugun en þau á eftir að samþykkja á fleiri stöðum í breska stjórnkerfinu. Ef lögin öðlast gildi í núverandi mynd brjóta þau í bága við alþjóðalög. Það hefur vakið reiði bandarískra stjórnmálamanna sem óttast að þau gætu haft áhrif á frið á Norður-Írlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert