Segir bóluefni í boði í næsta mánuði

Ummæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um bóluefni og grímur stangast á við fullyrðingar yfirmanns helstu heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna. Trump segir að bóluefni sé tiltækt fyrir Bandaríkjamenn nánast strax, ekki um mitt ár 2021 eins og yfirmaðurinn hefur gefið út. 

Hann neitar því einnig að grímur gætu verið mikilvægari en bóluefni, eins og Robert Redfield, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC), hefur sagt. 

Trump á blaðamannafundi í gær.
Trump á blaðamannafundi í gær. AFP

Sagði Redfield ringlaðan

Umræða um bóluefni er orðin að miklu hitamáli í Bandaríkjunum þar sem forsetakosningar nálgast óðum. Í gær sagði Trump að Bandaríkjamenn myndu fá aðgang að bóluefni strax í næsta mánuði. Það stangast á við það sem Redfield hefur sagt. 

„Við getum byrjað [að bólusetja] einhvern tímann í október,“ sagði Trump og kallaði Redfield ringlaðan vegna þess að Redfield gerir ráð fyrir því að það taki lyfjaframleiðendur lengri tíma að þróa bóluefni. 

Að sögn Redfields verður heilbrigðisstarfsfólk í forgangi hvað bóluefni varðar, mögulega verður hægt að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk í janúar eða jafnvel seint á þessu ári. Hann telur þó ólíklegt að bóluefni standi almenningi í Bandaríkjunum til boða fyrr en um mitt næsta ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert