Clooney segir upp sem erindreki ríkisstjórnarinnar

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney.
Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney. AFP

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney hefur sagt upp starfi sínu sem erindreki bresku ríkisstjórnarinnar í málefnum fjölmiðlafrelsis. Ástæða þess er óánægja hennar með fyrirætlanir bresku ríkisstjórnarinnar um að fá samþykkt lagafrumvarp sem gerir stjórninni kleift að brjóta gegn skuldbindingum sínum í samkomulagi Breta og Evrópusambandsins, og þar með gegn alþjóðalögum. BBC greinir frá.

Clooney segir það „sorglegt“ fyrir Boris Johnson forsætisráðherra að hann íhugi að brjóta Brexit-samkomulagið sem hann skrifaði undir í fyrra, en í því fólst að Bretar gengu úr Evrópusambandinu að nafninu til 31. janúar 2020 en fylgja þó áfram lögum Evrópusambandsins til áramóta og eiga um leið aðild að innri markaði þess.

Segist Clooney ekki geta gengið um í nafni Bretlands og sagt öðrum að virða lagalegar skuldbindingar sínar á sama tíma og Bretar „tilkynna að þeir ætli ekki að gera það sjálfir“. Boris Johnson hefur sjálfur sagt að hann vilji ekki þurfa að nota þau völd sem honum eru færð með frumvarpinu, sem nefnist Internal Market Bill. Löggjöfin sé hins vegar nauðsynleg til að verja Breta, einkum Norður-Írland, ef samningaviðræður við ESB fara út um þúfur og framganga ESB er „ósanngjörn“.

Í uppsagnarbréfi sínu segir Clooney að hún hafi samþykkt starfstilboð í fyrra vegna sögulegs hlutverks Bretlands í því að varðveita réttarkerfið á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert