Danir herða reglur á landsvísu

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Thorkild Fogde lögreglustjóri á blaðamannafundi …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Thorkild Fogde lögreglustjóri á blaðamannafundi í dag. AFP

Kórónuveiran er nú svo útbreidd í Danmörku að barir, veitingastaðir og skemmtistaðir í öllu landinu verða að loka klukkan 22 á kvöldin. Frá þessu greindi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag. Sérstakar reglur, sem síðustu vikur hafa gilt í Kaupmannahöfn og nágrenni, munu nú gilda um land allt.

Undir þær fellur einnig 50 manna samkomubann, sem og krafa um að allir beri grímu á börum, veitingastöðum og skemmtistöðum þar til fólk hefur sest niður. Hingað til hefur aðeins verið grímuskylda í almenningssamgöngum í Danmörku.

Einnig kynnti Frederiksen nýjar ráðleggingar frá sóttvarnayfirvöldum. Eru allir sem hafa tök á hvattir til að vinna heiman frá og forðast að nota almenningssamgöngur á háannatíma.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í Danmörku síðustu vikur. Í fyrradag greindust 453 með kórónuveiruna og hafa aldrei verið fleiri á einum degi. Þá liggja 58 á spítala vegna hennar. 

„Við erum ekki á sama stað og 11. mars,“ sagði Frederiksen og vísað til upphafs fyrstu bylgju faraldursins, dagsins þegar öllum skólum var lokað í Danmörku, viku áður en strangt samkomibann tók gildi í landinu. „En við verðum að komast hjá því að lenda í þeirri stöðu á ný.“

Lögreglan getur lokað þessu svæði, segir á skilti sem komið …
Lögreglan getur lokað þessu svæði, segir á skilti sem komið hefur verið upp á Gamla torgi í miðborg Kaupmannahafnar. Samskonar skilti má sjá á öðrum fjölförnum svæðum í borginni. mbl.is/Alexander
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert