Segir kæruleysið allsráðandi

Espen Nakstad, aðstoðarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Noregs, segir Óslóarbúa orðna kærulausa í …
Espen Nakstad, aðstoðarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Noregs, segir Óslóarbúa orðna kærulausa í umgengni sinni við þann vágest sem kórónuveiran er. Á fimmta hundrað smit hafa greinst í borginni síðustu tvær vikur, þar af tæplega 200 hjá fólki á þrítugsaldri. mbl.is/Golli

„Ég óttast að fólk átti sig ekki á alvöru málsins. Smittölurnar eru háar, ekki er ólíklegt að Ósló verði „rauðasta“ borg Evrópu ef svo fer sem horfir.“ Þetta segir Espen Rostrup Nakstad, aðstoðarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Noregs, um mikla fjölgun kórónuveirutilfella í Ósló þar sem 68 manns hafa greinst smitaðir síðasta sólarhringinn, en 447 síðustu 14 daga.

Nakstad segir borgarbúa fljóta sofandi að feigðarósi og hegða sér orðið eins og ekkert hafi í skorist, fólki gangi æ verr að gæta að fjarlægð sín á milli auk þess sem margir séu á ferli þrátt fyrir að vera með smiteinkenni. Hann telur öruggt að tilfellum fækki hegði Óslóarbúar sér eins og þeir gerðu í vor, en nú sé kæruleysið allsráðandi.

Íhuga sömu reglur og í Bergen

Aðstoðarforstjórinn hefur nokkuð til síns máls, rúmur mánuður er nú síðan norsk yfirvöld settu fram þau tilmæli að notendur almenningssamgangna í Ósló og Indre-Østfold, þar sem smittölfræði er einnig ískyggileg, notuðu andlitsgrímur á ferðum sínum en það gerir þó varla nokkur maður eins og berlega kom í ljós í aðalfréttatíma norska ríkisútvarpsins NRK í kvöld þar sem sýnt var frá vettvangsferð sjónvarpsfréttateymis um neðanjarðarlestir Óslóar.

Robert Steen, borgarfulltrúi Verkamannaflokksins, segir nú til skoðunar að setja sömu reglur og gilda í Bergen, að takmarka einkasamkvæmi við tíu manna hópa og gera veitingahúsum að halda skrá yfir alla gesti sína til að auðvelda smitrakningu.

„Ég deili áhyggjunum af auknum fjölda smita í Ósló með Espen Nakstad og er sammála þeirri greiningu hans að íbúar Óslóar, og annarra landshluta, eru orðnir værukærir gagnvart þeim grundvallarráðleggingum sem gilda svo lengi sem kórónuveiran er hér í samfélaginu,“ segir Steen.

Yngra fólk ber uppi nýju bylgjuna

Lýðheilsustofnun Noregs bendir á að það sé yngra fólkið sem hefur borið uppi smitbylgjuna eftir að sumarfrístímabilinu lauk en tæplega 200 þeirra 447 sem smitast hafa síðustu 14 daga eru á aldrinum 20 – 29 ára.

„Áður en langt um líður gengur smitið frá yngra fólki til þess eldra. Haldi smittilfellum áfram að fjölga heilt yfir munum við sjá fleiri innlagnir á sjúkrahús og mun alvarlegra ástand í allri Evrópu,“ sagði Espen Nakstad við NRK í dag.

NRK
NRKII
VG
TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert