Framkvæmdi tannlækningar á svifbretti

Svokallað svifbretti. Rangnefni myndu einhverjir segja, því það svífur ekki.
Svokallað svifbretti. Rangnefni myndu einhverjir segja, því það svífur ekki. AFP

Bandarískur tannlæknir hefur verið dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir brot á starfsreglum tannlækna, svik og að hafa stefnt viðskiptavinum í hættu með gáleysi við störf. Þá er honum gert að endurgreiða ríflega tvær milljónir dala (270 m.kr.) sem hann stal frá ríkinu.

Tannlæknirinn, Seth Lookhart, sendi vinum sínum meðal annars myndband af sjálfum sér þar sem hann stóð á svifbretti á meðan hann dró tönn úr sjúklingi sem hafði fengið kæruleysislyf. Að svo búnu tók hann af sér hanskana og rúllaði burt á brettinu.

Að því er fram kemur í dómi er þetta uppátæki þó ekki það alvarlegasta sem Lookhart var staðinn að.

„Hefði átt að vera agaðri“

„Lookhart var nálægt því að drepa marga sjúklinga með því að framkvæma svæfingu mörg þúsund sinnum án þess að hafa til þess þjálfun eða hafa fengið samþykki. Á sama tíma stal hann fjármunum frá Medicaid [heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna] og frá yfirmönnum sínum,“ segir í yfirlýsingu frá deild innanríkisráðuneytisins í Alaska.

Í samtali við CNN sagði tannlæknirinn alræmdi: „Þegar ég horfi til baka get ég ekki alveg sagt til um það hvenær ég fór út af sporinu. Ég hefði getað og hefði átt að vera agaðri og einbeittari,“ sagði hann.

mbl.is