Herða aðgerðir í Madrid

Kona sést hér ganga með grímu fyrir framan lokaða verslun …
Kona sést hér ganga með grímu fyrir framan lokaða verslun í Vallecas-hverfinu í Madrid. AFP

Spænsk yfirvöld hafa ákveðið að herða sóttavarnaaðgerðir í hluta Madridar, höfuðborgar Spánar, til að sporna gegn ört fjölgandi kórónuveirusmitum. Á sama tíma fer tilfellum einnig fjölgandi víða í Evrópu. 

Frá og með mánudeginum þurfa yfir 850.000 íbúar í Madrid að búa við hertari aðgerðir, sem lúta m.a. að ferðalögum og hversu margir mega hittast í einu. 

Spánn er það Evrópuland þar sem flest kórónuveirusmit hafa greinst, og enn og aftur er það höfuðborgarsvæðið sem verður einna verst úti. 

Í norðurhluta Evrópu búa mörg lönd sig undir aðra bylgju faraldursins nú í haust og vetur. 

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur varað við þeirri hættu sem menn standi frammi fyrir þegar þeir fara að færa sig meira milli staða. Mike Ryan, yfirmaður neyðaraðgerða hjá WHO, segir margt eiga eftir að gera til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar, draga úr fjölgun smita og vernda skóla og viðkvæmustu hópana í samfélaginu. 

Í gær greindu frönsk yfirvöld frá því að 13.215 ný tilfelli hefðu greinst, sem er það mesta á einum sólarhring frá því faraldurinn braust út. Það eru ríflega 3.000 fleiri smit en á fimmtudag. Meðal smitaðra er Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, sem kveðst hafa greinst með veiruna en sagðist ekki finna fyrir neinum einkennum. Víða í Frakklandi hefur verið ákveðið að herða aðgerðir, m.a. í Nice og Marseille. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert