Ráðleggja fólki að fara í skimun

Margir nota grímur, sem eru sagðar ein besta vörnin gegn …
Margir nota grímur, sem eru sagðar ein besta vörnin gegn smiti. AFP

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) ráðleggur nú öllum sem hafa verið í návígi við einstaklinga sem vitað er að hafi greinst með kórónuveiruna að fara í skimun. Þetta eru umskipti frá ráðleggingum bandarískra heilbrigðisyfirvalda frá í ágúst, en þá voru skilaboðin þau að ef fólk fyndi ekki fyrir einkennum væri skimun óþarfi.

Stofnunin ítrekar því fyrri leiðbeiningar sínar varðandi skimanir sem voru í gildi áður en ofangreind breyting var kynnt í ágúst, sem naut ekki stuðnings vísindamanna. 

Fram kemur í New York Times að breytt ráðlegging hafi verið birt á vef stofnunarinnar í ágúst þrátt fyrir að sérfræðingar væru á öðru máli. 

Flest bandarísk ríki höfðu þá þegar hafnað þeirri leiðbeiningu, að því er Reuters greinir frá. 

Trump Bandaríkjaforseti sagði í júní að hann hefði hvatt embættismenn …
Trump Bandaríkjaforseti sagði í júní að hann hefði hvatt embættismenn til að draga úr skimunum. Talsmaður forsetans sagði að ummælin hefðu verið spaug. AFP

Fréttaskýrendur hafa haldið því fram að rekja mætti breytta ráðleggingu í ágúst til Trumps Bandaríkjaforseta, sem vildi sýna fram á að Covid-19-tilfellum færi fækkandi í landinu. Forsetinn sagði m.a. við stuðningsmenn sína á fundi í júní, að hann hefði hvatt embættismenn til að draga úr skimunum. Talsmaður Hvíta hússins sagði aftur á móti að þetta hefði verið spaug hjá forsetanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert