7-8 milljarða stuðningur við bari

Veitingastaðir berjast í bökkum í Danmörku sem annars staðar. Myndin …
Veitingastaðir berjast í bökkum í Danmörku sem annars staðar. Myndin er tekin utan við Hviids Vinstue, athvarf Jónasar Hallgrímssonar í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisstjórn Danmerkur á nú í viðræðum við nokkra flokka á danska þinginu um styrkveitingar til veitingastaða, kaffihúsa og bara, til að bregðast við slæmri rekstrarstöðu greinarinnar.

Fyrirtæki í þessum rekstri eru meðal þeirra sem hafa farið verst út úr kórónuveirufaraldrinum. Þeim var gert að loka um tveggja mánaða skeið frá í mars og fram í maí og hafa síðan þá þurft að búa við skertan opnunartíma. Nú síðast var opnunartími skertur til klukkan 22 á kvöldin.

Simon Kollerup, viðskiptaráðherra Danmerkur, segir að fjárhæð samkomulagsins hlaupi á 300-400 milljónum danskra króna (6,5-8,6 ma. ISK).

„Pakkinn sem er í smíðum verður mikil hjálp til veitingastaða, kaffihúsa og bara, sem við höfum beðið um að loka klukkan tíu á kvöldin í stað tvö á nóttunni. Hann á að ná utan um veltuna sem sjálfbær fyrirtæki missa af og hjálpa fyrirtækjum að greiða fastan kostnað. Húsaleiguna þarf jú að greiða þótt staðirnir þurfi að loka fyrr.“

Með samkomulaginu er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði  meirihluta þess fjár sem fyrirtæki í rekstinum verða af, samkvæmt tilteknum reglum. Staður sem verður af 35% af tekjum muni til að mynda fá 25% greitt, en staður sem missir yfir 90% fá 80% greitt.

Þá munu staðir sem hafa að hámarki fimm stöðugildi geta valið um að loka alfarið og fá 90% af föstum kostnaði greidd úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert