Sektir upp á allt að 1,8 milljónir

Bresk stjórnvöld eru óhrædd við að beita hertum aðgerðum, sé …
Bresk stjórnvöld eru óhrædd við að beita hertum aðgerðum, sé ekki farið eftir sóttvarnarreglum. AFP

Bresk stjórnvöld vara við hertum aðgerðum sé sóttvarnareglum ekki fylgt og hafa í þokkabót tilkynnt að sektir sem nema allt að 10 þúsund pundum eða 1,8 milljónum íslenskra króna gætu beðið þeirra sem fylgja ekki fyrirmælum um einangrun. Taka þær reglur gildi 28. september næskomandi.

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, segir faraldurinn kominn á ystu nöf og nú hafi þjóðin val, að því er fram kemur í frétt BBC. Ef allir fylgdu fyrirmælum væri hægt að forðast útgöngubann á landsvísu.

Boris Johnson forsætisráðherra íhugar nú samkomubann milli aðila sem ekki deila heimili og sömuleiðis að stytta afgreiðslutíma öldurhúsa. 

Þegar heilbrigðisráðherra var spurður hvort von væri á útgöngubanninu sagðist Hancock ekki vilja útiloka slíkt. Neitar hann því að stjórnvöld séu að bregðast of harkalega við og vonast til þess að bóluefni verði tilbúið á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert