Handtekin fyrir að senda rísín í Hvíta húsið

Hvíta húsið. Pakkinn var gerður upptækur í síðustu viku.
Hvíta húsið. Pakkinn var gerður upptækur í síðustu viku. AFP

Kanadísk kona, sem grunuð er um að hafa sent umslag sem innihélt eitrið rísín til Hvíta hússins, var handtekin í gær þegar hún reyndi að komast inn í Bandaríkin um mæri landsins við Kanada.

Næstum ár er síðan henni var vísað á brott úr Bandaríkjunum fyrir að hafa tekið þátt í glæpastarfsemi, að því er dagblaðið New York Times hefur eftir tveimur bandarískum embættismönnum.

Starfsmenn við landamæragæslu tóku konuna höndum þar sem hún reyndi inngöngu í landið við borgina Buffalo. Konan var þá vopnuð byssu.

Búist er við að saksóknari í Washington-borg muni leggja fram ákæru á hendur henni fyrir að senda eitrið til híbýla Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert