Hermenn myrtu tvær konur og tvö börn

Úr myndbandinu sem er vægast sagt truflandi.
Úr myndbandinu sem er vægast sagt truflandi. Skjáskot

Fjórir kamerúnskir hermenn hafa verið dæmdir til tíu ára fangelsisvistar vegna aðildar sinnar að morðum á tveimur konum og tveimur börnum árið 2015. Morðin náðust á myndband sem fór á flug árið 2018 en þar sjást konurnar og börnin með hulin höfuð. 

Ríkisstjórn Kamerún vísaði ásökunum um morðin fyrst frá og sagði að myndbandið væri falsfrétt. Síðar voru sjö hermenn handteknir. 

Rannsókn BBC leiddi í ljós að atvikið hafi átt sér stað norðarlega í Kamerún og hverjir þrír hermannanna væru. 

Í myndbandinu, sem hægt er að sjá hér að neðan, þó án mest truflandi endalokum myndbandsins hvar konurnar og börnin eru myrt, ásaka hermennirnir konurnar um að tengjast hryðjuverkasamtökunum Boko Haram sem hafa gert sig gildandi í Kamerún. 

Hermennirnir leiða þær og börnin svo niður veg og binda fyrir augun á þeim. Svo skjóta þeir börnin og konurnar 22 sinnum. Ein kvennanna var með barnið á baki sínu allan tímann. Ástæða er til þess að vara við myndskeiðinu þar sem það gæti vakið óhug.

Tveir þeirra sjö sem voru kærðir fyrir verknaðinn voru sýknaðir. Sá þeirra fimm sem eftir voru og fékk ekki 10 ára fangelsisdóm fékk tveggja ára dóm fyrir að hafa tekið atvikið upp á myndband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert