Taj Mahal opið að nýju eftir sex mánaða lokun

Fáeinir ferðamenn taka myndir fyrir utan Taj Mahal grafhýsið í …
Fáeinir ferðamenn taka myndir fyrir utan Taj Mahal grafhýsið í morgun. AFP

Hið goðsagnakennda Taj Mahal-grafhýsi á Indlandi hefur verið opnað að nýju fyrir ferðamönnum eftir lengstu lokun í sögu grafhýsisins. 

Grafhýsinu var lokað fyrir sex mánuðum þegar útgöngubann var sett á í landinu í mars til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Takmarkanir fylgja opnuninni, en aðeins 5.000 einstaklingar geta heimsótt Taj Mahal daglega og sóttvarnatakmarkanir verða í gildi. Grafhýsið er einn vinsælasti ferðamannastaður heims, en að jafnaði heimsóttu um 70.000 manns staðinn daglega fyrir heimsfaraldurinn.

AFP

Taj Mahal var síðast lokað árið 1978 þegar mikil flóð urðu í Agra, borginni þar sem grafhýsið stendur. Þá var grafhýsinu lokað í fáeina daga árið 1971 þegar Indland átti í stríði við Pakistan. 

Grafhýsið var opnað klukkan átta í morgun að staðartíma og var sótthreinsað áður en fyrstu gestum var hleypt inn. Gestir eru hitamældir við komuna og greiða fyrir heimsóknina með rafrænum hætti. Gestir mega áfram taka sjálfsmyndir, en hópmyndir eru bannaðar. 

Á Indlandi hafa um fimm milljón smit kórónuveirunnar verið staðfest. 

AFP
mbl.is