Þingmaður lagði í veg fyrir járnbrautarlest

Þingmaðurinn lagði bíl sínum á lestarteina fyrir slysni. Mynd úr …
Þingmaðurinn lagði bíl sínum á lestarteina fyrir slysni. Mynd úr safni. AFP

Franski þingmaðurinn Jean Lassalle lagði óvart bíl sínum í veg fyrir lest í gær. Þingmaðurinn var að verða of seinn á ruðningsleik sonar síns og hélt að hann hefði fundið „stórkostlegt bílastæði,” er haft eftir Lassalle í frétt BBC.

Kom síðar á daginn að bílastæðið reyndist vera stigamót, þar sem bílaumferð og járnbrautateinar mætast.

Lögreglumenn höfðu upp á þingmanninum í áhorfendastúku og upplýstu hann um að bílnum væri lagt í veg fyrir járnbrautalest, og að hann þyrfti að færa bílinn til að lestin kæmist leiðar sinnar.

„Ég var mjög hissa,” sagði Lassalle í viðtali um atvikið, en hann bauð sig fram sem forseta í frönsku forsetakosningunum árið 2017. Við bílinn beið kyrrstæð járnbrautarlest sem beið þess að bíllinn yrði færður.

„Sem betur fer var skyggni lestarinnar gott og því var engin hætta”, sagði Lassalle. „Ég hef enga afsökun; það eru tvö ár síðan þessi lína opnaði, og ég meira að segja vígði hana. Þetta eru stór mistök.”

Þingmaðurinn bað farþega lestarinnar afsökunar og sagði allir hafi verið afar almennilegir. Hann slapp við sekt en stakk upp á leið til að forðast samskonar mistök í framtíðinni.

„Ef ég væri með bílstjóra, eins og aðrir þingmenn, þá myndi þetta ekki gerast,” sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert