Þrjár „borgir stjórnleysis“ missa ríkisstuðning

Frá mótmælum í Portland í síðustu viku.
Frá mótmælum í Portland í síðustu viku. AFP

Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur ákveðið að draga saman ríkisstuðning til þriggja borga eftir að ríkisstjórnin ásakaði borgirnar um að sitja hjá á meðan glæpir væru framdir.

New York, Portland og Seattle eru á lista yfir „borgir stjórnleysis“ sem embættismenn Trumps segja að hafi ekki náð að stemma stigu við glæpum sem tengjast mótmælum. BBC greinir frá. 

Trump hafði áður varað við því að svona gæti farið. Borgarstjórar borganna þriggja hafa hótað málssóknum og kalla ákvörðunina pólitískt glæfrabragð. Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum í nóvember.

Hvatti borgirnar til að „snúa við blaðinu“ 

Í yfirlýsingu sem bandaríska dómsmálaráðuneytið sendi frá sér í dag var nýleg glæpatíðni lögð fram ásamt upplýsingum um það hvernig lögregla innan borganna hafi brugðist við. 

„Við getum ekki leyft því að skattfé sé sóað þegar öryggi borgaranna hangir á bláþræði,“ sagði William Barr dómsmálaráðherra í yfirlýsingunni. 

Hann hvatti Portland, Seattle og New York til að „snúa við blaðinu og verða alvara með grunnhlutverk stjórnvalda og byrja að vernda eigin borgara.“

Mikil mótmæli gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum hafa farið fram í borgunum þremur síðan Bandaríkjamaðurinn George Floyd beið bana við handtöku í maí. 

Óljóst er hversu mikið ríkisstjórnin mun skera niður fjárframlög. Ofbeldisfullum glæpum hefur fækkað í bandarískjum borgum frá tíunda áratugnum en þeim hefur fjölgað mikið á síðasta árinu, sérstaklega í Philadelphiu, Chicago og New York. 

mbl.is