Karl kallar eftir Marshall-aðstoð við umhverfið

Erfingi bresku krúnunnar hefur áður talað fyrir baráttunni gegn loftslagsvánni, …
Erfingi bresku krúnunnar hefur áður talað fyrir baráttunni gegn loftslagsvánni, en hann er aldrei sagður hafa verið eins harðorður og nú. AFP

Karl Bretaprins kallar eftir því að heimurinn setji sig í stríðsstellingar til þess að takast á við loftslagsvána. 

Í ávarpi sínu á loftslagsviku New York-borgar sagði Karl að sú yfirvofandi hætta sem loftslagsváin skapaði, sem og tap líffræðilegs fjölbreytileika, myndi áhrif kórónuveirufaraldursins að engu gera.

„Á þessum tímapunkti sé ég enga leið áfram aðra en að kalla eftir áætlun á borð við þá sem kennd er við Marshall fyrir náttúruna, mannfólkið og plánetuna,“ sagði Karl og vitnaði til stórtækrar aðstoðar Bandaríkjana við enduruppbyggingu Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari.

Sagði Karl að stjórnendur heimsins hefðu afneitað loftslagsvánni of lengi og kallaði eftir því að viðskiptaleiðtogar og stjórnvöld skipulegðu skýrar áætlanir til þess að útrýma losun gróðurhúsalofttegunda og endurbyggja náttúruna.

Lönd Evrópusambandsins hafa þegar skuldbundið sig til þess að útrýma losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050, en það segir Karl ekki nóg og vill að stefnt verði að sama markmiði fyrir árið 2030, enda megi jörðin engan tíma missa.

Erfingi bresku krúnunnar hefur áður talað fyrir baráttunni gegn loftslagsvánni, en hann er aldrei sagður hafa verið eins harðorður og nú.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert