Kína hafi leyft veirunni að „sýkja heiminn“

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að draga þyrfti Kína til ábyrgðar vegna COVID-19 faraldursins. Forsetinn sakaði Kína um að hafa leyft  kórónuveirunni að yfirgefa Kína og „sýkja heiminn“.

Í ræðu sinni sagði Xi Jinping, forseti Kína, að heimurinn ætti ekki að gera baráttuna gegn faraldrinum að pólitísku bitbeini. 

Þingið er haldið stafrænt á þessu ári. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna væru undir venjulegum kringumstæðum fullar af þjóðarleiðtogum og fulltrúum þeirra en vegna faraldursins hafa þjóðarleiðtogar tekið upp ávörp sín fyrir fram og eru þau sýnd á stafrænu formi. 

Eins og gjarnan vill verða með ræður á þinginu notaði Trump tækifærið til að upphefja árangur sinn og beina spjótum að keppinauti, þ.e. Kína. 

„Við verðum að draga þjóðina sem sleppti plágunni út í heiminn til ábyrgðar – Kína,“ sagði Trump í ávarpi sínu.

„Í upphafi faraldurs lokaði Kína á innanlandsflug en leyfði alþjóðlegum flugferðum að halda áfram og sýkja heiminn. Kína fordæmdi ferðabann mitt þangað, jafnvel á sama tíma og þar var innanlandsflugferðum aflýst og fólk lokað inni á heimilum sínum,“ bætti Trump við.

Xi varaði við árekstrum

Trump hefur ítrekað ásakað stjórnvöld í Kína um að hafa reynt að breiða yfir útbreiðslu veirunnar og sagt að þau hefðu getað komið í veg fyrir hana. Frammistaða Trumps í að takmarka útbreiðslu veirunnar í eigin landi hefur sætt mikilli gagnrýni en yfir 200.000 Bandaríkjamenn eru fallnir vegna hennar. Hvergi hafa fleiri látið lífið vegna COVID-19 á heimsvísu. Stjórnvöld í Kína hafa kallað gagnrýni Trumps ástæðulausa truflun.

Spenna á milli Kína og Bandaríkjanna er mikil í ýmsum málefnum, þar á meðal viðskiptum, tækni, stöðunni í Hong Kong og meðferð Kína á minnihlutahópi múslima í Xingjang héraði í Kína. 

Xi ávarpaði þingið skömmu eftir ræðu Trumps. Þar varaði hann við áhættum árekstra menningarheima. 

„Við munum halda áfram að draga úr ágreiningi og leysa deilur við aðra með viðræðum,“ sagði Xi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina