Varar ESB við að neyða ríki til að fá flóttafólk

Sebastian Kurz í viðtali við AFP í dag.
Sebastian Kurz í viðtali við AFP í dag. AFP

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, varar við nokkurri tilraun innan Evrópusambandsins í þá veru að neyða aðildarríki til að taka inn hælisleitendur.

Ummæli Kurz falla í kjölfar þess að Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, tilkynnti í síðustu viku að Dyfl­inn­ar­reglu­gerðin verði af­num­in. Í stað henn­ar verði tekið upp nýtt stjórn­kerfi fyr­ir hæl­is­leit­end­ur í álfunni.

Dreifing hælisleitenda mistekist

Í sérstöku viðtali við fréttaveitu AFP vísar 34 ára kanslarinn til fyrri tilrauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að setja á fót skyldukvóta flóttamanna sem aðildarríki ESB þurfi að uppfylla. Þeim var hafnað af mörgum Austur- og Mið-Evrópulöndum.

„Við teljum dreifingu hælisleitenda í Evrópu hafa mistekist og mörg ríki hafna þessu. Þetta mun ekki virka svona,“ segir Kurz.

Stjórnvöld sambandsins í Brussel munu á morgun tilkynna ný áform sín hvað varðar stefnu ESB í málefnum hælisleitenda.

Kanslarinn segist fagna því að framkvæmdastjórn sambandsins ætli sér að …
Kanslarinn segist fagna því að framkvæmdastjórn sambandsins ætli sér að athuga betur málefni hælisleitenda og flóttafólks. AFP

Öll ríkin leggi sitt af mörkum

Framkvæmdastjóri innanríkismála ESB, Ylva Johansson, vill að öll ríkin 27 deili þeirri byrði að sjá um umsóknir hælisleitenda, sem koma að mestu til álfunnar í gegnum Miðjarðarhafsríkin Grikkland Ítalíu og Spán.

Hún hefur vakið aftur máls á fyrri hugmyndum um skyldudreifingu, þó ekki endilega með dreifingu flóttamanna um álfuna, heldur frekar með því að neyða öll ríkin til að leggja sitt af mörkum í kerfinu. Til að mynda með því að aðstoða við að koma þeim hælisleitendum, sem ekki fá heimild til að vera innan sambandsins, aftur til heimalands síns.

Aðstoði lönd þaðan sem flóttamenn koma

Kurz segist fagna því að framkvæmdastjórn sambandsins ætli sér að athuga betur málefni hælisleitenda og flóttafólks.

„Við getum einungis leyst þetta málefni öll saman. Betri gæsla á ytri landamærum, með sameiningu í baráttu við smyglara, en einnig með sameiginlegri aðstoð þar sem hennar er þörf, í löndum þaðan sem flóttamenn koma – það er leiðin sem þarf að fara.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina