Ákærður vegna andláts Breonnu Taylor

Blómum og fleiri virðingarvottum hefur verið valinn staður í borginni, …
Blómum og fleiri virðingarvottum hefur verið valinn staður í borginni, til minningar um Taylor. AFP

Brett Hankison, fyrrverandi lögreglumaður í Louisville í Kentucky, hefur verið ákærður fyrir að ryðjast inn í íbúð Breonnu Taylor og hleypa þar af tíu skotum „í skeytingarleysi og blindni“.

Ákæruvaldið í ríkinu tilkynnti þetta fyrir stundu, en Hankison er einn lögreglumanna ákærður fyrir aðild sína.

Innrás lögreglu í íbúðina og sú skotárás sem fylgdi varð Breonnu að bana fyrir um sex mánuðum. Lögreglumennirnir réðust inn í íbúðina á grundvelli leitarheimildar sem leyfði þeim lögum samkvæmt að gera engin boð á undan sér. Mun hún hafa verið hluti af rannsókn í fíkniefnamáli.

Þjóðvarðliðið kallað út

Nafn Breonnu Taylor varð síðar eitt þeirra sem mótmælendur lögregluofbeldis kölluðu sem hæst í aðgerðum sínum eftir að lögreglumaður myrti svarta manninn George Floyd.

Þjóðvarðlið hefur verið kallað út til Louisville og hefur útgöngubann verið boðað frá klukkan níu í kvöld, þar sem búist er við mótmælum eftir að þessi ákvörðun ákæruvaldsins var tilkynnt, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

mbl.is