Sór embættiseið fyrir luktum dyrum

Alexander Lúkasjenkó á kjörstað í síðasta mánuði.
Alexander Lúkasjenkó á kjörstað í síðasta mánuði. AFP

Alexander Lúkasjenkó sór embættiseið fyrir luktum dyrum í morgun sem forseti Hvíta-Rússlands.

Ekkert hafði verið tilkynnt um athöfnina fyrirfram en um er að ræða sjötta kjörtímabil Lúkasjenkó í embætti forseta.

„Alexander Lúkasjenkó hefur svarið embættiseið sem forseti Hvíta-Rússlands. Athöfnin fer fram þessa stundina í Sjálfstæðishöllinni,“ sagði í frétt frá ríkisútvarpi landsins.

Áður höfðu sjálfstæðir fréttamiðlar greint frá því að götum hefði verið lokað áður en bílalest forsetans ók í gegnum höfuðborgina Minsk.

Niðurstöðum forsetakosninganna í Hvíta-Rússlands hefur verið mótmælt harðlega í landinu. Forsetinn hefur verið sakaður um umfangsmikið kosningasvindl og hafa krafist afsagnar hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert