Frumkvöðull fallinn frá

Harold Evans sést hér á ljósmynd frá árinu 2007.
Harold Evans sést hér á ljósmynd frá árinu 2007. AFP

Margir, þar á meðal fréttamenn, baráttumenn og stjórnmálamenn, hafa í dag vottað fyrrverandi ritstjóranum Harold Evans virðingu sína, en Evans lést í New York í Bandaríkjunum 92 ára að aldri. Hann er einna þekktastur fyrir vandaða og beitta rannsóknarblaðamennsku Sunday Times um alvarleg áhrif lyfsins talídómíðs, sem gat valdið alvarlegum fósturskemmdum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem starfaði sjálfur sem blaðamaður og pistlahöfundur, segir að Evans hafi verið sannkallaður frumkvöðull á sviði rannsóknarblaðamennsku. Aðrir hafa hrósað Evans fyrir að taka á málum af óttaleysi.

Ian Murray, formaður Society of Editors, segir að Evand hafi verið „risi“ og „sannur baráttumaður fyrir frjálsum fjölmiðlum“. Hann hafi einnig verið óhræddur við að draga valdhafa til ábyrgðar. 

Harold Evans.
Harold Evans. AFP

Andrew Neil, einn af eftirmönnum Evans hjá Sunday Times, segir að Evans sé einn „merkasti ritstjóri sinnar kynslóðar“. 

Evans starfaði sem ritstjóri hjá Reuters þegar hann féll frá af völdum hjartaáfalls.


Hann er einna þekktastur fyrir að fjalla um talídómíð og svipt hulunni af því hvernig lyfið, sem var upphaflega notað sem svefnlyf og kvíðastillandi lyf, og áhrif þess hafi ekki verið nægilega vel rannsökuð. Evans barðist fyrir því að lyfjafyrirtækið sem framleiddi talídómíð yrði gert að greiða háar bætur, en lyfið var mikið auglýst á sínum tíma meðal annars handa þunguðum konum. En talídómíð gat hins vegar valdið alvarlegum fósturskemmdum, ef það var tekið snemma í meðgöngu. 

Baráttumaðurinn Glen Harrison, hjá samtökunum Thalidomide UK, segir að Evansi hafi verið framúrskarandi maður. „Við vitum ekki hvar við værum ef hans hefði ekki notið við.“

Evans starfaði sem ritstjóri Sunday Times frá 1967 til 1981. Undir hans stjórn greindi blaðið m.a. frá því að breski njósnarinn Kim Philby hefði verið tvöfaldur í roðinu og einnig njósnað fyrir Sovétmenn. 

Evans birti einnig færslur úr dagbókum Richard Crossman, sem er fyrrverandi breskur ráðherra, þrátt fyrir að Evans ætti í hættu á að vera sóttur til saka fyrir að greina frá dagbókum ráðherrans. 

Lesa má um lyfið talídómíð hér

Wikipediasíða um Harold Evans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert