Hafna tillögum Evrópusambandsins

Fyrir fundinn í dag, frá vinstri, Mateusz Morawiecki, forseti Póllands, …
Fyrir fundinn í dag, frá vinstri, Mateusz Morawiecki, forseti Póllands, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands. AFP

Hópur Austur-Evrópuríkja hafnaði í dag nýrri tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvernig eigi að taka á móti hælisleitendum. Ríkjahópurinn metur það svo að tillagan taki ekki nógu hart á málefninu.

Leiðtogar Ungverjalands, Póllands og Tékklands, sem allir hafa sýnt harða afstöðu gegn innflytjendum, hafa rætt í dag við æðstu embættismenn Evrópusambandsins eftir að nýju tillögurnar voru kynntar í gær.

Þær fela í sér strangara landamæraeftirlit og einfaldara verklag við að flytja hælisleitendur, sem ekki fá hæli, aftur úr sambandinu.

„Stöðvið innflytjendurna“

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, segir tillögurnar ekki ganga nógu langt og ítrekar þá kröfu sína að athuga verði flóttamenn í búðum utan Evrópu, áður en þeir komi til álfunnar.

Orban ræddi við blaðamenn eftir viðræður leiðtoganna í Brussel í dag. Hann segir að sér líki tónninn í tillögunum, en grundvallarnálgunin sé óbreytt.

„Þau vilja stýra aðflutningnum en ekki stöðva innflytjendurna,“ sagði hann. „Ungverska afstaðan er þessi: „Stöðvið innflytjendurna“. Þetta eru tveir mismunandi hlutir.“

„Algjör vitleysa“

Tillögur sambandsins, sem kynntar voru tveimur vikum eftir að eldsvoði gjöreyðilagði flóttamannabúðir á grísku eyjunni Lesbos, eiga að koma í stað Dyflinnarreglugerðarinnar.

Gangi tillögurnar eftir munu ríki sambandsins, sem ekki vilja taka á móti fleiri innflytjendum, geta sjálf flutt hælisleitendurna aftur til síns upprunalands.

Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, sagði eftir fundinn í dag að sú hugmynd væri „að undirstöðu algjör vitleysa“.

mbl.is

Bloggað um fréttina