Kýld í andlitið fyrir að vera í pilsi

Frá Strassborg í Frakklandi.
Frá Strassborg í Frakklandi. AFP

Lögreglan í Frakklandi hefur hafið rannsókn á ásökunum ungrar konu sem varð fyrir árás í Strassborg um hábjartan dag. Hún segir að þrír menn hefðu veist að sér og kýlt sig í andlitið. Ástæðan hafi verið sú að hún var í pilsi. 

Franskra ríkisstjórnin hefur fordæmt verknaðinn. Hún segir að þetta sé alvarlegt mál og algjörlega óviðunandi. 

Fram kemur á vef BBC, að um 1.800 sektir hafi verið gefnar út frá því ný löggjöf var samþykkt árið 2018 sem á að taka á götuáreiti. 

Konan, sem er 22 ára gömul, segir í samtali við útvarpsstöðina France Bleu Alsace, að hún hafi verið á heimleið þegar einn mannanna heyrist segja: „Sjáið þið hóruna þarna í pilsinu“. 

Hún greindi síðan frá því að tveir þeirra hefðu gripið í sig á meðan sá þriðji kýldi hana í andlitið. Mennirnir lögðu síðan á flótta. Konan segir ennfremur að fjölmenni hafi orðið vitni að atvikinu en enginn kom henni til aðstoðar.

Marlena Schiappa, aðstoðarinnanríkisráðherra Frakklands, heimsótti borgina í gær til að ræða um öryggi kvenna á almannafæri. Í samtali við France Bleu Alsace sagði hún að „pilsið ber enga ábyrgð á árásinni og konan alls ekki“. 

„Kona er aldrei slegin af því að hún gengur í pilsi. Kona er slegin vegna þess að það eru til einstaklingar sem ala á kvenfyrirlitningu og kvenhatri, eru ofbeldisfullir og virða hvorki lög né reglur með því að slá til þeirra.“

Hún hvatti fólk til að hafa samband við lögreglu verði það vitni að svona árásum og áreiti á götum úti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina