Háttsettur kardínáli segir af sér

Becciu var einn nánustu samstarfsmanna páfans og eru afsagnir svo …
Becciu var einn nánustu samstarfsmanna páfans og eru afsagnir svo háttsettra embættismanna Vatíkansins mjög sjaldgæfar. AFP

Háttsettur embættismaður innan Vatíkansins hefur óvænt sagt sig frá störfum og segir Frans páfa sjálfan hafa óskað eftir afsögninni.

Giovanni Angelo Becciu segist hafa verið grunaður um að gefa peninga kirkjunnar til bræðra sinna, en hann neitar sök.

Becciu var einn nánustu samstarfsmanna páfans og eru afsagnir svo háttsettra embættismanna Vatíkansins mjög sjaldgæfar, að því er segir í frétt BBC af málinu.

Embættismaðurinn hafði áður flækst í umdeilt mál tengt fjárfestingu kirkjusjóðs í lúxusbyggingu í London, en hann kveðst hafa verið neyddur til að segja af sér vegna gruns um að hann hafi gefið bræðrum sínum peninga kirkjunnar. „Ég stal ekki svo miklu sem einni evru. Málið er ekki til rannsóknar en ef þau fara með þetta fyrir dóm mun ég verja mig,“ hefur fréttamiðillinn Domani eftir Becciu.

Segir hann að málið hafi komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hann hafi álitið sig trúnaðarvin páfans og að það hafi verið Fransi mjög erfitt að segja honum fregnirnar. Becciu segir páfann hafa komið að máli við hann og beðið hann að segja af sér vegna þess að Frans treysti honum ekki lengur.

Becciu segir að um misskilning sé að ræða og að hann sé tilbúinn að útskýra allt fyrir páfanum.

Becciu krýpur fyrir Fransi páfa.
Becciu krýpur fyrir Fransi páfa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert