Líkur á að dauðsföll nái 2 milljónum

Kirkjugarður í Brasilíu, þar sem næstflestir hafa látist af völdum …
Kirkjugarður í Brasilíu, þar sem næstflestir hafa látist af völdum COVID-19 á heimsvísu, eða tæplega 140 þúsund. AFP

Talsvert líklegt er að fórnarlömb kórónuveirufaraldursins verði tvær milljónir ef ekki verður gripið til vægðarlausra aðgerða á heimsvísu. 

Við þessu varar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nú þegar dauðsföll nálgast eina milljón, en stofnunin segir ekki óhugsandi að önnur milljón bætist við ef ríki og einstaklingar komi sér ekki saman um að takast á við faraldurinn.

„Ein milljón er hrikaleg tala og við þurfum að velta henni fyrir okkur áður en við förum að íhuga aðra milljónina,“ sagði yfirmaður neyðarmála hjá WHO, Michael Ryan, spurður um hvort óhugsandi væri að dauðsföll næðu tveimur milljónum.

En hann bætti við og spurði á móti hvort fólk væri tilbúið að gera það sem til þurfi til að koma í veg fyrir að dauðsföll nái slíkum hæðum. „Ef við grípum ekki til aðgerða... já, þá erum við að horfa á slíka tölu – og því miður miklu hærri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert