Lögðu hald á 27 milljónir gríma

Fólk á gangi með grímur í London.
Fólk á gangi með grímur í London. AFP

Ísland tók þátt í lögregluaðgerð Europol, Afródítu, þar sem lagt var hald á næstum 28 milljónir af fölsuðum og ólöglegum vörum þar á meðal 27 milljónir af grímum.

Í tilkynningu kemur fram að lögregluaðgerðin, sem Ítalir og Írar stjórnuðu með aðstoð Europol, hafi staðið yfir í átta mánuði og náð til 21 lands.

Frá því í desember í fyrra þangað til í júlí á þessu ári tókst lögreglunni að rekja sölu á netinu á ýmsum fölsuðum vörum. Varð það til þess að farið var inn í vöruhús, verslanir og á markaðstorg í Belgíu, Grikklandi, Portúgal, Rúmeníu, á Kýpur, Írlandi, Ítalíu og Spáni.

Falsaðar læknisvörur í tengslum við Covid-19 fundust. Þar á meðal fann ítalska lögreglan 27 milljónir gríma. Alls voru 123 facebooksíður skoðaðar, auk þess sem 36 vefsíðum sem seldu falsaðar vörur var lokað.

Tíu manns voru handteknir í Grikklandi og yfirvöld voru látin vita af 37 til viðbótar. Lagt var hald á yfir 700 þúsund evrur.

mbl.is