„Nú er komið nóg“

Uppnám varð á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.
Uppnám varð á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. AFP

Fulltrúar kínverska stjórnvalda í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fóru hörðum orðum um athugasemdir fulltrúa Bandaríkjanna við ráðið og sögðu að nóg væri komið af ásökunum um að Kínverjar hafi leyft kórónuveirunni að dreifast um heim allan. Kínverskir fulltrúar segja að það sé bandarískum stjórnmálamönnum sjálfum um að kenna hvernig farið hafi í baráttunni við kórónuveiruna þar í landi.

„Ég verð að segja að nú er komið nóg! Þið hafið valdið heimsbyggðinni allri nægilegum vandræðum nú þegar,“ sagði Zhang Jun, fulltrúi Kína við öryggisráðið á fundi ráðsins í dag.

„Tæplega sjö milljón tilfelli kórónuveirunnar hafa komið upp í Bandaríkjunum og þar af hafa um 200 þúsund látist. Hvers vegna er það svo, að flest kórónuveirusmit og dauðsföll af völdum veirunnar verði í Bandaríkjunum, þar sem bestu mögulega læknisþjónustu er að fá?“ spuði Jun á fundinum.

„Skammist ykkar, öll sömul!“

Ummæli Jun vöktu reiði bandarískra fulltrúa við öryggisráðið. Áður en Jun lagði orð í belg hafði Kelly Craft, sendifulltrúi Bandaríkjanna við öryggisráðið, sagt að honum þætti skammarlegt að fulltrúar við öryggisráðið hefðu nýtt fund ráðsins til þess að einblína á pólitísk þrætuepli í stað þeirra raunverulegu vandamála sem að heimsbyggðinni steðja.

„Skammist ykkar, öll sömul!“ sagði Craft í lok ræðu sinnar og kom það flatt upp á aðra fulltrúa við ráðið sem brugðust ókvæða við, líkt og segir í frétt AFP um málið.

Þá hefur fréttaveitan eftir nafnlausum fulltrúa við ráðið að gott samráð hafi verið meðal fundargesta um málefni fundarins þar til Craft hóf upp ásakanir sínar á hendur kínversku fulltrúanna.

mbl.is