Sprauta þúsundir með ósamþykktu bóluefni

Ósamþykktu bóluefnin gætu haft í för með sér neikvæðar aukaverkanir …
Ósamþykktu bóluefnin gætu haft í för með sér neikvæðar aukaverkanir og afleiðingar. AFP

Samþykkt bóluefni gegn kórónuveirunni hefur enn ekki litið dagsins ljós en það hefur ekki stöðvað kínversk stjórnvöld í því að sprauta tugi, ef ekki hundruð þúsunda, með ósamþykktum bóluefnum. 

Starfsmenn lyfjafyrirtækja, embættismenn og aðrir hafa verið sprautaðir með ósamþykktum bóluefnum utan venjulegs prófunarferlis bóluefnis í Kína. Fleiri verða bólusettir á næstunni og hafa sérfræðingar áhyggjur af hugsanlegum aukaverkunum bóluefnisins.

New York Times greinir frá þessu og segir að næst eigi að bólusetja kennara, starfsmenn stórmarkaða og fólk sem hyggur á ferðalög til áhættusvæða. 

Þremur tegundum bóluefna er sprautað í kandídátana, starfsmenn sem stjórnvöld telja að séu mikilvægir samfélaginu, þar á meðal starfsmenn lyfjafyrirtækjanna sjálfra. 

Starfsmaður kínversks lyfjafyrirtækis skoðar bóluefni.
Starfsmaður kínversks lyfjafyrirtækis skoðar bóluefni. AFP

Neyðarnotkun

Embættismenn vinna nú að áætlun um að bólusetja enn fleiri og segja um neyðarnotkun að ræða. 

Ákvörðun Kína hefur vakið upp fjölda spurninga á meðal sérfræðinga á heimsvísu. Ekkert land hefur sprautað fólk með ósamþykktu bóluefni utan hefðbundinna prófunarferla í jafn miklum mæli. 

Ósamþykktu bóluefnin sem er nú sprautað í fólk eru öll á stigi þrjú í prófunarferlinu, þ.e. á síðasta stigi prófana. Heilbrigðisstarfsmenn fylgjast grannt með þeim sem hafa verið sprautaðir í hefðbundna prófunarferlinu en óljóst er hvort slíkt hið sama sé gert fyrir fólkið sem er sprautað utan prófunarferlis. 

Sprautaðir og undirrita samning

Ósamþykktu bóluefnin gætu haft í för með sér neikvæðar aukaverkanir og afleiðingar. Til dæmis gætu bóluefni sem virka ekki leitt til falskrar öryggiskenndar sem leiðir til áhættuhegðunar og þar af leiðandi fleiri smita en ella. 

Víðtæk notkun bóluefna vekur einnig spurningar um samþykki, sérstaklega hvað varðar starfsmenn kínverskra bóluefnaframleiðenda og ríkisfyrirtækja sem gætu fundið fyrir þrýstingi um að taka við bólusetningu. Fyrirtækin hafa beðið starfsfólk sem tekur við bóluefnum að undirrita samning um að fólkið ræði ekki við fjölmiðla um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert