Nöfn 411 Íslendinga í gagnaleka

Gagnabankinn hefur að geyma nöfn 2,4 milljóna einstaklinga frá yfir …
Gagnabankinn hefur að geyma nöfn 2,4 milljóna einstaklinga frá yfir 200 löndum. AFP

Nöfn 411 Íslendinga eru í gagnabanka kínversks fyrirtækis sem fylgist með hegðun fólks á samfélagsmiðlum í meintu samstarfi við kínverskar varnarmála- og leyniþjónustustofnanir. 

Fyrirtækið, Zhenhua Data Information Technology, segir ekkert athugavert við gagnabankann, sem hefur að geyma nöfn alls 2,4 milljóna einstaklinga. Á meðal nafna í gagnabakanum eru stjórnmálamenn, opinberir starfsmenn víðs vegar um heiminn og listamenn. Gagnabankinn er ekki aðgengilegur, en um 10% nafnanna hafa verið birt í fjölmiðlum erlendis. 

Í frétt Guardian kemur fram að í gagnabankanum sé að finna persónulegar, og oft ítarlegar, upplýsingar um hina ýmsu einstaklinga. Netöryggisfyrirtæki í Ástralíu sem þjónustar bæði yfirvöldum í Ástralíu og Bandaríkjunum, hefur náð að staðfesta um 250.000 nöfn í gagnabankanum. Á meðal þeirra eru 52.000 Bandaríkjamenn, 35.000 Ástralir og um 10.000 Bretar. Á meðal nafna í gagnabankanum eru Boris Johnson og Scott Morrison, forsætisráðherrar Bretlands og Ástralíu, fjölskyldur þeirra, breska konungsfjölskyldan og hernaðarleiðtogar. 

Talsmaður Zhenhua hefur neitað því að nokkuð annað en opinberar upplýsingar sé að finna í gagnabankanum. 

Í grein Washington Post kemur fram að gagnabankinn út af fyrir sig sé ekki athyglisverður heldur sé það stærð hans og umfang sem veki athygli. Það komi ekki á óvart að upplýsingum sé safnað um Bandaríkjamenn og Breta, en það veki athygli að nöfn frá mjög fámennum ríkjum sé einnig að finna í gagnabankanum, meðal annars 411 nöfn Íslendinga, 163 Færeyinga og 73 Grænlendingu. Þetta megi eflaust rekja til áhuga kínverskra yfirvalda á Norðurslóðum. 

mbl.is