Tugir handteknir vegna hvarfs 43 kennaranema

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, á fundi með ættingjum …
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, á fundi með ættingjum nemendanna. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hafa fyrirskipað handtökur tuga hermanna vegna grunsemda um að þeir hafi tekið þátt í hvarfi 43 kennaranema fyrir sex árum síðan.

Andres Manuel Lopez Obradar, forseti Mexíkó, tilkynnti um handtökurnar í gær er hann kynnti skýrslu vegna rannsóknar á málinu sem hefur staðið yfir í langan tíma.

„Réttlætið mun ná til þeirra sem tóku þátt í þessu,“ sagði Obradar, sem greindi ekki nánar frá ákærunum. 

Hvarf kennaranemanna hefur vakið mikla reiði í Mexíkó. Þeir hurfu í ríkinu Guerro er þeir voru á leið á mótmæli. Spilltir lögreglumenn stöðvuðu rútur þeirra í borginni Iguala og færðu þá í hendur eiturlyfjahrings.

Saksóknarar sögðu á sínum tíma að meðlimir eiturlyfjahringsins hefðu gert mistök og talið nemana vera meðlimi í öðrum glæpasamtökum, drepið þá, brennt líkin og varpað jarðneskum leifum þeirra í á.

Yfir þrjátíu manns grunaðir um aðild að hvarfi fólksins hafa verið handteknir síðan í mars, að sögn mexíkóskra stjórnvalda.

Fjölskyldur fórnarlambanna hafa lengi kvartað yfir því að herinn hefði ekkert gert til að vernda nemanna og að mögulega hefðu þeir átt þátt í glæpnum.

mbl.is