Hvetja fólk til að leita sér aðstoðar

Japanska leikkonan Yuko Takeuchi.
Japanska leikkonan Yuko Takeuchi. AFP

Japanska ríkisstjórnin hvetur fólk til þess að leita sér aðstoðar líði því illa. Tilefni hvatningar stjórnvalda er andlát þekktrar leikkonu þar í landi um helgina.

Andlát Yuko Takeuchi, sem var fertug að aldri, hefur vakið mikla athygli og beint sjónum að fjölgun sjálfsvíga meðal þekktra einstaklinga í Japan. Takeuchi naut mikilla vinsælda meðal Japana en hún fór með aðalhlutverkið í þekktri þáttaröð, Miss Sherlock. Hún eignaðist annað barn sitt fyrr á árinu.

Ráðherra í ríkisstjórn landsins, Katsunobu Kato, sem áður var heilbrigðisráðherra, segir að talsvert sé um að fólk eigi erfitt með að takast á við breyttar aðstæður vegna kórónuveirufaraldursins og að sjálfsvígum hafi fjölgað jafnt og þétt undanfarna mánuði. Ekki sé hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd og nauðsynlegt að hvetja fólk til þess að leita sér aðstoðar líði því illa. Hann hvetur fólk til þess að nýta sér þjónustu hjálparsíma og aðra sambærilega þjónustu. 

Fyrr í mánuðinum lést japanska leikkonan Sei Ashina og er talið að um sjálfsvíg sé að ræða. Leikarinn Haruma Miura svipti sig lífi í júlí og í maí lést raunveruleikasjónvarpsstjarnan Hana Kimura í kjölfar árása á netinu. Hún kom meðal annars fram í Terrace House sem var framleitt af Netflix.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert