Nýtti tímann til að hlusta á fuglana

Sir David Attenborough.
Sir David Attenborough. AFP

Sir David Attenborough segir að hann hafi eytt drjúgum hluta þess tíma er Bretum var gert að halda sig heima vegna kórónuveirunnar í að hlusta á fuglana þar sem hann sat í garði sínum.

Vegna veirunnar neyddist náttúrulífssjónvarpsmaðurinn heimsþekkti til þess að hætta ferðalögum líkt að flestir aðrir jarðarbúar. Hann segir að þetta hafi gefið honum tækifæri til þess að gera eitthvað sem sjaldan er gert – að hafa tíma til að stara langtímum saman út í loftið.

Attenborough er nú kominn með reikning á Instagram og í síðustu viku setti hann nýtt met á samfélagsmiðlum þar sem aldrei í sögunni hefur nokkur fengið jafn marga fylgjendur á svo stuttum tíma.

Attenborough var gestur í morgunþætti BBC, Breakfast, í morgun og þar ræddi hann um væntanlega bók og heimildarmynd á Netflix, A Life On Our Planet. Hann viðurkennir að þetta hafi nú verið auðvelt að neyðast til að halda sig heima vikum saman en Attenborough er 94 ára að aldri. „Margir hafa það miklu verra en ég,“ sagði hann í þættinum. „Ég er heppinn, ég á garð, ég á hús... ég og dóttir mín höfum það mjög gott.“

BBC



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert