Pelosi: „Þetta varðar þjóðaröryggi“

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í deildinni, segir að meint skattasniðganga og skuldir Donalds Trumps forseta varði þjóðaröryggi. BBC greinir frá.

Trump hefur sem kunnugt er neitað að birta skattskýrslur sínar opinberlega, þvert á áratugalanga hefð forsetaframbjóðenda. Í afhjúpun bandaríska blaðsins New York Times, sem hefur komið höndum yfir skýrslurnar, er greint frá því að forsetinn hafi engan tekjuskatt greitt í ellefu af þeim átján árum sem tekin voru til skoðunar.

Þá hafi hann aðeins greitt 750 bandaríkjadali (100 þús.kr.) í tekjuskatt samanlagt árin 2016 og 2017. Þetta hafi hann komist upp með vegna bókfærðs taps fyrirtæka í hans rekstri, sem skuldi milljarða, og vafasams skattafrádráttar.

Fyrirsláttur hjá forsetanum

Í viðtali við sjónvarpsstöðina NBC í dag sagði Peloci að skýrslurnar sýndu svart á hvítu að forsetinn væru skuldsettur upp á 400 milljónir dala (56 ma.kr.). „Hverjum skuldar hann? Öðrum ríkjum? Hvaða áhrif hafa þeir á hann,“ spurði Pelosi. „Þetta varðar þjóðaröryggi.“

Í greinum New York Times er hulunni, að sögn, svipt af gegndarlausum taprekstri fyrirtækja Trumps og áralangri skattasniðgöngu. Trump sé persónulega ábyrgur fyrir lánum upp á yfir 300 milljónir dala sem muni falla á gjalddaga á næstu fjórum árum.

Trump hefur sjálfur hafnað fréttaflutningi New York Times og sagt hann falsfréttir. Hann hafi greitt fullt í skatt, en geti ekki birt skatt­skýrsl­ur sín­ar sjálfur þar sem þær eru til end­ur­skoðunar hjá skatta­yf­ir­völd­um.

Hið síðastnefnda er þó fyrirsláttur, en ríkisskattstjóri Bandaríkjanna, Charles P. Rettig, sem Trump skipaði í embætti, hefur sagt að rannsókn komi ekki í veg fyrir að Trump birti þær.

mbl.is