Rannsaka nýja tilgátu um Estoniu-slysið

Stafnhlera Estonia lyft upp á yfirborðið.
Stafnhlera Estonia lyft upp á yfirborðið. AFP

Yfirvöld á Eistlandi, í Svíþjóð og Finnlandi tilkynntu í dag að ný tilgáta um hvað olli því að farþegaferjan Estonia sökk á leið sinni frá Tallinn til Stokkhólms árið 1994 verði rannsökuð. 

Alls fórust 852 með ferjunni, en um er að ræða mannskæðasta sjóslys í Evrópu á friðartímum. Niðurstaða rannsóknar frá árinu 1997 á tildrögum slyssins var að sjór hefði streymt inn um hlera á stefni ferjunnar sem leiddi inn á bílaþilfar skipsins og valdið því að ferjan sökk í vondu veðri. 

Framleiðendur nýrrar heimildarmyndar um slysið hafa nú haldið því fram að þeir hafi uppgötvað áður óþekkta fjögurra metra holu stjórnborðsmegin á skrokki ferjunnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnvalda landanna þriggja segir að upplýsingarnar verði skoðaðar. 

Á stillumynd úr heimildarmyndinni má sjá holuna á skrokki ferjunnar.
Á stillumynd úr heimildarmyndinni má sjá holuna á skrokki ferjunnar. AFP

Eftirlifendur og ættingjar þeirra sem fórust í slysinu hafa frá árinu 1997 barist fyrir því að frekari rannsóknir verði gerðar á tildrögum slyssins. Sumir hafa haldið því fram að hafa heyrt sprengjuhljóð skömmu áður en skipið sökk á meðan aðrir segja að ferjan hefði aldrei geta sokkið eins hratt og raun bar vitni ef niðurstöður rannsóknarinnar frá 1997 væru réttar, en ferjan sökk á tæpum fimmtíu mínútum eftir fyrsta neyðarkall og komust einungis 137 farþegar lífs af. 

Þurfi að útskýra tilvist holunnar 

Þeir sem standa að baki heimildarmyndinniEstonia:TheFindThatChangesEverything, eðaEstonia: Uppgötvunin sem breytir öllu, segjast hafa uppgötvað holuna þegar þeir skoðuðu skipsbrak ferjunnar með fjarstýrðum kafbáti. Sérfræðingar sem rætt er við í heimildarmyndinni segja að einungis utanaðkomandi afl hafði geta valdið holunni. 

AFP

„Ég trúi því að sannleikurinn sé eitthvað annað en fólki hefur verið talin trú um hingað til,“ segir Carl Eric Reintamm, sem lifði af slysið, í heimildarmyndinni. Reintamm segist hafa heyrt háværan hvell og séð hvítan, óþekktan hlut fljóta við hlið ferjunnar áður en hún sökk, en sérfræðingar segja að ekki hafi verið tekið tillit til þess vitnisburðar við rannsóknina 1997. 

Hingað til hafa yfirvöld í Eistlandi, Svíþjóð og Finnlandi verið treg til þess að láta endurrannsaka tildrög slyssins. Yfirvöld hafa meðal annars lagst gegn því að skipið verði dregið upp af hafsbotni, bæði vegna kostnaðar og umfang þess að endurheimta lík þeirra sem fórust í slysinu. 

AFP

Vettvangur slyssins var á sínum tíma skilgreindur sem grafreitur á hafi úti af þeim þremur þjóðum sem áttu hlut að máli. Afleiðing þess er meðal annars að Henrik Evertsson, leikstjóri nýju heimildarmyndarinnar, var handtekinn í september á síðasta ári í kjölfar þess að skipsflakið var skoðað af kvikmyndagerðateyminu. Hann á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm í Svíþjóð. 

Evertsson segir það þó hafa verið „algjörlega nauðsynlegt og fjölmiðlafræðilega mikilvægt“ að rannsaka skipsflakið við gerð myndarinnar. 

Umfjöllun Guardian.

mbl.is