Smit um borð í skemmtiferðaskipi

Mein Schiff 6.
Mein Schiff 6. Af vef TUI

Á annan tug starfsmanna skemmtiferðaskipsins Mein Schiff 6 hafa greinst með kórónuveiruna. Skemmtiferðaskipið er það fyrsta sem kemur til hafnar í Grikklandi eftir að dregið var úr sóttvarnaráðstöfunum í landinu. Alls eru 922 farþegar um borð í skipinu sem er gert út af þýsku ferðaskrifstofunni TUI.

Skipið liggur við ankeri fyrir utan eyjuna Milos í Eyjahafi en 150 af 666 í áhöfn skipsins voru sendir í skimun í gær.

Upplýsingafulltrúi grísku strandgæslunnar segir að þeir smituðu séu í einangrun um borð en beðið sé leiðbeininga frá landlækni um framhaldið. Skemmtiferðaskipið sigldi frá Heraklion á Krít í gærkvöldi og var á leið til hafnarbæjarins Piraeus, skammt frá Aþenu, þegar smitin komu í ljós. 

Allir farþegarnir um borð voru ósmitaðir þegar lagt var af stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert