Áfengissölubann og auknar sóttvarnir í skoðun

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sést hér taka af sér grímuna …
Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sést hér taka af sér grímuna þar sem hún tekur þátt í umræðum á þingi í morgun. AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, mun í dag þrýsta á sambandsríkin 16 að herða sóttvarnareglur. Þar á meðal áfengisbann og hertar reglur varðandi grímunotkun. 

Nýjum kórónuveirusmitum hefur fjölgað í Þýskalandi undanfarnar vikur líkt og víða annars staðar í Evrópu. Þar er nú nýgengi smita 30,9 á hverja 100 þúsund íbúa á meðan Ísland er með 138,7 ný smit síðustu 14 daga á 100 þúsund íbúa. 

Merkel mun ræða við forsætisráðherra ríkjanna síðdegis og verður þar fjallað um hvernig hægt verður að koma í veg fyrir mikla fjölgun smita þannig að hægt verði að koma í veg fyrir aðgerðir eins og að loka fyrirtækjum og skólum líkt og gert var um miðjan mars.

Meginmarkmiðið er að halda skólum og leikskólum áfram gangandi og annarri atvinnustarfsemi til að koma í veg fyrir að grípa þurfi til sársaukafullra aðgerða líkt og gert var fyrr á árinu. 

Búist er við því að Merkel muni leggja til að sambandsríkin seti þak á fjölda sem megi koma saman, banna áfengissölu á ákveðnum tímum og fjölga stöðum þar sem skylda er að bera grímu. 

Forsætisráðherra Saxlands, Michael Kretschmer, segir það eina í stöðunni að herða reglur þar sem smitum hefur fjölgað mikið. Það sé ekki þannig í Saxlandi en á einhverjum stöðum. 

mbl.is