Ekkert bendir til fækkunar dauðsfalla

AFP

Yfir ein milljón er látin af völdum kórónuveirunnar samkvæmt talningu John Hopkins háskólans. Ekkert bendir til þess að dauðsföllum fari fækkandi og í fjölmörgum löndum eru farsóttin komin á fulla ferð á nýjan leik eftir nokkra vikna hlé.

AFP

Í morgun, níu mánuðum eftir að fyrsta COVID-19 smitið kom upp í kínversku borginni Wuhan, var greint frá því að staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 væru orðin yfir ein milljón talsins. Tilkynnt var um fyrsta staðfesta dauðsfallið af völdum veirunnar í Wuhan 12 dögum eftir að fréttir bárust af áður óþekktri veirusýkingu í lungum.

Staðfest dauðsföll nú eru 1.000.555 talsins en að sögn yfirmanns hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru þau að öllum líkindum mun fleiri.

AFP

Guardian hefur eftir Mike Ryan, yfirmanni neyðaraðgerða hjá WHO, að aldrei sé hægt að halda nákvæma tölu yfir dauðsföll í heimsfaraldri. En ég get fullvissað ykkur um að talan er vantalin ef eitthvað er hvað varðar dauðsföll af völdum COVID.

Yfir 20% þeirra sem hafa látist voru í Bandaríkjunum en í Brasilíu eru yfir 142 þúsund látnir og 95 þúsund á Indlandi. Þar greinast flest ný smit þessa dagana. Talið er að miklu, miklu fleiri hafi látist af völdum COVID-19 í Sýrlandi og Íran en gefið er upp.

Sérstakur grafreitur fyrir þá sem hafa látist af völdum COVID-19 …
Sérstakur grafreitur fyrir þá sem hafa látist af völdum COVID-19 í Mexíkó. AFP

Nancy Baxter, farsóttarfræðingur hjá  Melbourne’s School of Population and Global Health, tekur undir með Ryan í samtali við BBC. Yfir eitt þúsund hafa látist á hverjum degi síðan 18. mars og á sama tíma og það tekst að ná tökum á COVID-19 á einum stað þá blossar það upp annars staðar segir Baxter. „Þannig að því miður erum við að sjá áfram svipan fjölda af dauðsföllum þangað til búið er að finna bóluefni og dreifa því,“ segir Baxter. 

Aðeins er vitað um COVID-19 smit eftir að veiran greindist fyrst í Kína í desember en ítalskar rannsóknir sýna að veiran var þegar komin þangað í þeim sama mánuði og sama á við um Frakkland.

Fæstu skráðu dauðsföllin voru í maí þegar að meðaltali 4.449 létust á dag en í ágúst voru þau flest eða 5.652 á dag að meðaltali. Á sama tíma eru sífellt fleiri langtímaáhrif COVID-19 að koma í ljós eftir því sem tímanum líður. Má þar nefna hjarta- og lungnasjúkdóma.

AFP

Veiran getur valdið sýkingum víða í líkamanum, meðal annars í öndunarfærum. Flestir fá aðeins væga sýkingu í efri öndunarfæri (allt ofan barkakýlis) og stundum niður í berkjur og minni berkjunga. Gögn hingað til benda til þess að bati eftir slík veikindi geti tekið dágóðan tíma en sé almennt góður og engar langtímaafleiðingar hljótist af.

„Hins vegar getur COVID-19 einnig valdið alvarlegri sýkingum sem ná niður í lungun, sérstaklega þann hluta lungna þar sem loftskipti fara fram. Í alvarlegustu tilfellunum verður til ástand sem kallast brátt andnauðarheilkenni (e. acute respiratory distress syndrome), þar sem mikið bólgusvar og vefjaskemmdir fara saman. Við það minnkar geta lungna til að koma súrefni yfir í blóðið og þaðan til annarra vefja. Ekki liggja fyrir skýr svör um nákvæmar langtímaafleiðingar af þessum alvarlegum sýkingum í tengslum við COVID-19 - það er hreinlega of stuttur tími liðinn til þess. Hins vegar eru alvarlegar lungnabólgur og brátt andnauðarheilkenni ekki glæný fyrirbæri - margskonar sýkingar geta valdið álíka mynstri veikinda, til að mynda fyrri kórónuveirusýkingarnar SARS (e. severe acute respiratory syndrome) og MERS (e. Middle-East respiratory syndrome) ásamt mörgum gerðum inflúensu (sérstaklega fuglaflensa),“ segir í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar læknis á Vísindavefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina