Grímuskylda í hollenskum verslunum

Grímuskylda í almenningssamgöngum í Hollandi hefur verið í gildi um …
Grímuskylda í almenningssamgöngum í Hollandi hefur verið í gildi um nokkurt skeið. Hér sést starfsmaður lestarstöðvar í Rotterdam afhenda farþega grímu. AFP

„Við erum að gera okkar besta en veirunni gengur betur,“ viðurkenndi Hugo de Jong, heilbrigðisráðherra Hollands, er hann tilkynnti löndum sínum um að í fyrsta skipti síðan kórónuveirufaraldurinn hófst yrði grímuskylda annars staðar en í almenningssamgöngum í landinu.

Í samanburði við nágrannalöndin hefur Hollandi tekist að halda faraldrinum í skefjum með tiltölulega vægum aðgerðum hingað til, en undanfarna viku hafa um 3 þúsund smit greinst daglega í þessu 17 milljóna íbúa landi.

Reglur varðandi grímuskyldu í verslunum taka gildi í dag og gilda næstu þrjár vikur. Þá er fólki ráðlagt frá ferðalögum á milli borganna Amsterdam, Rotterdam og Haag, þar sem ástandið er hvað verst.

Börum og veitingastöðum ber einnig að loka kl. 22 frá og með deginum í dag, og feta Hollendingar þar í fótspor fjölmargra annarra Evrópuþjóða, svo sem Bretlands, Spánar, Frakklands og Danmerkur.

Fólki er auk þess ráðlagt að vinna heiman frá sér, samkomur í heimahúsum eru takmarkaðir við þrjá og áhorfendur fá ekki að vera viðstaddir íþróttaviðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert