„Í trássi við vísindin“

Karolinska Institutet í Svíþjóð.
Karolinska Institutet í Svíþjóð.

Rannsókn sænskra saksóknara á plastbarkamálinu svokallaða er lokið og verða ekki fleiri ákærur gefnar út en á hendur ítalska lækninum Paolo Macchi­ar­ini. Þetta segir Mikael Björk, saksóknari í málinu, í samtali við mbl.is.

Þrír aðrir yfirmenn á Karolínska sjúkrahúsinu voru til rannsóknar hjá saksóknara, en mál gegn þeim voru felld niður í vor. „Rannsóknin á yfirmönnunum þremur var felld niður í vor vegna skorts á sönnunargögnum,“ segir Björk. „Það er enginn frekari grunur um brot hjá þeim.“

Spurður hvort útilokað sé að aðrir fái réttarstöðu grunaðs í málinu, verst saksóknarinn fimlega. „Það er ekki við hæfi að ætla öðrum réttarstöðu grunaðs.“

Machiarini með plastbarka.
Machiarini með plastbarka. Ljósmynd/Karólínska

Macchiarini er ákærður fyr­ir al­var­lega lík­ams­árás, er hann græddi plastbarka í þrjá sjúklinga á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, en einn þeirra og sá fyrsti var And­emariam Tek­les­en­bet, sjúklingur Tómasar Guðbjartssonar læknis. Eru þeir nú allir látnir. Björk staðfestir við mbl.is að Tómas verði ekki ákærður í málinu.

Saksóknari ákvað í desember 2018 að taka málið upp að nýju. Gögnum hefur verið safnað og yfirheyrslur haldnar í Svíþjóð, Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Spáni.

„Í þessum yfirheyrslum og með skriflegu sönnunargögnunum hefur það orðið mér ljóst að íhlutunin var í trássi við vísindin og sannreyndar aðferðir, og því ekki á neinn hátt lagaleg tegund heilbrigðisþjónustu eða leyfðrar vísindarannsóknar,“ segir í tilkynningu frá saksóknara sem birtist í morgun.

Saksóknari mun að svo stöddu ekki rökstyðja nánar hví hann kemst að niðurstöðu sinni, en sá rökstuðningur verður borinn upp við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í Solna, úthverfi Stokkhólms.mbl.is