Ákærður fyrir manndrápstilraun

Maðurinn er ákærður fyrir tilraun til manndráps.
Maðurinn er ákærður fyrir tilraun til manndráps. Skjáskot/BBC

Maður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa skotið lögreglumenn í kyrrstæðri lögreglubifreið í Los Angeles, með þeim afleiðingum að þeir særðust alvarlega.

Árásin var framin 12. september síðastliðinn og hafa báðir lögreglumennirnir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi síðan þá en réttarhöld yfir manninum, Deonte Lee Murray fóru fram í dag, þar sem hann neitaði sök. Fórnarlömbin voru 31 árs kona sem skotin var í kjálkann og handleggina, og 24 ára maður sem var skotinn í ennið, handlegginn og höndina.

Atvikið vakti athygli bandarísku þjóðarinnar og hafa báðir forsetaframbjóðendurnir harmað atvikið. Lögreglan í Los Angeles lýsti því yfir að maðurinn hafi verið kærður fyrir tvær tilraunir til manndráps auk brots á vopnalögum. Maðurinn var handtekinn 15. september en fram að því hafði hann verið í varðhaldi fyrir bílþjófnað.

Ekki fæst séð að Murray hafi haft nokkurn hvata fyrir brotinu, samkvæmt því sem ákæruvaldið í Los Angeles hefur gefið út.

mbl.is