Bálför án samþykkis fjölskyldu

Indverska lögreglan er sökuð um að hafa brennt lík nítján ára gamallar stúlku gegn vilja fjölskyldunnar hennar. Stúlkan lést af völdum áverka sem hún hlaut er fjórir menn nauðguðu henni hrottalega um miðjan september. 

Unga kon­an til­heyrði Dalit-stétt­inni sem er lægsta stétt­in í Indlandi en henni var nauðgað af fjórum körlum af hærri stétt í Uttar Pradesh-ríki 14. september. Hún lést á sjúkrahúsi í Nýju-Delí í gær, þriðjudag.  

AFP

Málið hefur vakið mikla reiði meðal almennings um allt Indland og magnaðist hún enn frekar í dag þegar fréttir bárust af því að lögreglan hafi sótt lík stúlkunnar og brennt gegn vilja fjölskyldunnar. 

Í gærkvöldi kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda sem kröfðust aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hún lést. Síðar um kvöldið fylgdi fjölmennt lið lögreglu líkbílnum heim í þorpið í Hathras-héraði þar sem hún bjó í. Að sögn fjölskyldu hennar lagði lögregla hald á líkið þegar líkbíllinn kom þangað þrátt fyrir að andmæli ættingja og þorpsbúa. Bálförin fór síðan fram um miðja nótt. 

Lögreglan hefur ekki útskýrt hvers vegna svo mikið lá á að brenna líkið þrátt fyrir andmæli ættingja og vina klukkan 3 í nótt. Vildu ættingjar hennar að líkið fengi að standa uppi í einhvern tíma þannig að ættingjar gætu komið þangað og vottað ungu konunni virðingu sína.

„Við grátbáðum þá um að leyfa okkur að fara með líkama hennar inn í húsið í síðasta skipið en þeir hlustuðu ekki á okkur,“ segir bróðir ungu konunnar í viðtali við Indian Express.

Lögreglan í Hathras-héraði fyrirskipaði síðan að líkið yrði brennt strax og neyddu fjölskylduna til að fylgjast  með. Lögreglustjórinn neitar þessu og segir að bálförin hafi verið með samþykki fjölskyldunnar. 

AFP

Lögreglan hafði útvegað brennivið fyrir bálförina og aðstoðað fjölskylduna við brennuna. Flestir fjölskyldumeðlimir hafi verið viðstaddir en fólk untan fjölskyldunnar hafi ekki fengið að fylgjast með til þess að koma í veg fyrir uppþot og mótmæli.

Unga stúlkan fannst liggjandi í blóðpolli á akri skammt frá heimili sínu. Áverkar á hálsi og mænu leiddu til þess að hún lamaðist og lést eins og áður sagði af völdum áverkanna í gær. Fjórir hafa verið handteknir grunaðir um að hafa nauðgað hana og beitt hana öðru ofbeldi en þeir voru handteknir tíu dögum eftir árásina. 

Stjórnmálamenn, Bollywood-leikarar og leikstjórar, krikketstjörnur, aðgerðarsinnar og baráttufólk fyrir mannréttindum hafa stigið fram og mótmælt aðgerðarleysi lögreglu og fordæmt árásina.

AFP

Lögreglan handtók einhverja mótmælendur við sjúkrahúsið. þar á meðal Chandrashekhar Azad, sem er stjórnmálamaður úr stétt Dalita. Hann leiddi umræðuna á mótmælunum og krafðist þess að árásarmennirnir yrðu dæmdir til dauða. Boðað hefur verið til mótmæla víða í landinu í dag.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert