Forsetinn heitir áframhaldandi átökum

Frá átökum í Nagorno-Karabakh héraði í vikunni.
Frá átökum í Nagorno-Karabakh héraði í vikunni. AFP

Forseti Aserbaídsjans hefur heitið því að berjast áfram við nágrannaþjóð sína, Armena, þar til hersveitir Armena yfirgefa umdeilt landsvæði. Þjóðirnar tvær hafa nú barist í fjóra daga og eru átökin hörð. 

„Við höfum aðeins eitt skilyrði. Armenskir herir verða skilyrðislaust og að fullu að yfirgefa landsvæði okkar þegar í stað,“ sagði forsetinn, Ilham Aliyev, í dag. 

Fleiri en 100 hafa fallið frá átökunum sem eru sögð harðasti bardaginn í mörg ár um Nagorno-Karabakh hérað. Það er opinberlega hluti Aserbaídsjan en héraðinu er stjórnað af Armenum. 

Lýðveldin tvö háðu stríð um héraðið á árunum 1988-1994. Óljóst er hvað olli átökunum, sem eru þau mestu síðan vopnahléi var komið á árið 1994. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert