Nítján ára og heilsuhraustur lést eftir veirusmit

Starfsmenn sjúkrabílaþjónustu í New York. Myndin tengist fréttinni ekki með …
Starfsmenn sjúkrabílaþjónustu í New York. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

19 ára nemi í Appalachian-ríkisháskólanum í Norður Karólínu lést á mánudagskvöld vegna COVID-19. Neminn, Chad Dorrill, var talinn heilsuhraustur. Hann bjó utan heimavistar þegar veikindin bar að garð og lagði stund á fjarnám frá skólanum. Fyrr í septembermánuði fór hann að finna til einkenna. 

Í kjölfarið fór hann í veirupróf sem hann fékk jákvæða niðurstöðu úr og einangraði sig því á heimili fjölskyldu sinnar. Eftir að hann fékk skilaboð um að hann væri útskrifaður fór hann aftur í sitt eigið húsnæði. Þar fór hann að finna fyrir alvarlegri einkennum. Hann var því sóttur af fjölskyldu sinni sem keyrði hann á spítala. 

„Átti framtíðina fyrir sér“

„Auðvitað eru öll andlát harmleikur en sorgin ristir sérstaklega djúpt þegar við syrgjum ungan mann sem átti framtíðina fyrir sér“, skrifaði rektor skólans í tilkynningu. „Ég finn djúpt til með fjölskyldu Chads Dorrills og votta ég öllu samfélagi Appalachian samúð mína.“

Yfirvöld í Appalachian og fjöldkylda Dorrills hafa í kjölfar andlátsins hvatt alla til að gæta að sóttvörnum. Andlát Dorrills sýni að þrátt fyrir að ungt fólk sé almennt í minni hættu geti það veikst alvarlega af COVID-19. 

Mikill fjöldi smita hefur komið upp í háskólum og framhaldsskólum Bandaríkjanna undanfarið. Andlát Chads er fyrsta andlátið vegna veirunnar í Norður-Karólínu. Sömuleiðis hefur hutfall ungs fólks í hópi smitaðra í Bandaríkjunum stækkað mikið. 

Frétt NBC

mbl.is