Sjálfstæði frá Frakklandi talið ólíklegt

„Oui“. Auglýsingabæklingar sem hvetja kjósendur til að greiða atkvæði með …
„Oui“. Auglýsingabæklingar sem hvetja kjósendur til að greiða atkvæði með sjálfstæði. AFP

Íbúar á frönsku Kyrrahafsheyjunum Nýju-Kaledóníu greiða á sunnudag atkvæði um hvort sjálfstjórnarhéraðið á að segja sig úr lögum við franska lýðveldið og lýsa yfir sjálfstæði. Stjórnmálaskýrendur telja ólíklegt að sjálfstæði verði samþykkt í kosningunni, en engar skoðanakannanir hafa þó verið gerðar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Tvö ár eru síðan kjósendur höfnuðu síðast sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá greiddu 56,7% kjósenda atkvæði gegn sjálfstæði. Verði sjálfstæði hafnað á ný er von á að þriðja og seinasta atkvæðagreiðslan verði haldin árið 2022.

Andrúmsloftið eitrað

Mikil spenna er í Nýju-Kaledóníu vegna atkvæðagreiðslunnar og segja kunnugir að andrúmsloftið sé eitrað vegna hennar. „Andrúmsloftið er eitrað og það er ekkert samtal milli fólks lengur,“ segir Phillippe Duneoyer, þingmaður flokksins Kaledónía saman sem vill viðhalda sambandinu við Frakkland.

Franska ríkið greiðir til héraðsins um 1,5 milljarða evra (240 ma.kr.) á ári, eða um 15 prósent af vergri landsframleiðslu landsins. Sambandssinnar halda því fram að eyjaskeggjar hafi ekki ráð á að lýsa yfir sjálfstæði, en því andmæla sjálfstæðissinnar.

Útnári Evrópusambandsins

Í Nýju-Kal­edón­íu búa 271.000 manns en eyja­klas­inn er um 1.200 kíló­metr­um aust­an af Ástr­al­íu, og í 17.000 kíló­metra fjar­lægð frá meg­in­landi Frakk­lands, sem er nán­ast eins langt og tveir staðir geta verið hvor frá öðrum á jörðu. Breski land­könnuður­inn James Cook mun hafa verið fyrst­ur Evr­ópu­búa til að berja eyj­urn­ar aug­um og kem­ur nafnið frá hon­um þar sem hann taldi norður­hluta einn­ar eyj­unn­ar minna hann á Skot­land, en Kal­edón­ía er það nafn sem Róm­verj­ar gáfu Skotlandi.

Frakk­ar her­tóku eyj­arn­ar árið 1853 en um miðja 20. öld var það gert skil­greint sem yf­ir­ráðasvæði (e. overseas ter­ritory) Frakk­lands og eru íbú­ar nú full­gild­ir fransk­ir rík­is­borg­ar­ar með tvo þing­menn í hvorri deild franska þings­ins.

Eft­ir blóðug átök sjálf­stæðissinna og fransks herliðs á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar náðist árið 1988 sam­komu­lag sem fól í sér aukna sjálf­stjórn svæðis­ins í nokkr­um skref­um. Auk þess var samið um að íbú­ar fengju að halda allt að þrjár þjóðar­at­kvæðagreiðslur um sjálf­stæði og næg­ir að meiri­hluti sé fylgj­andi í einni þeirra til að landið öðlist sjálf­stæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert