Svíi dæmdur fyrir tvöfalt morð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Svíi var dæmdur sekur um tvöfalt morð fyrir héraðsdómi í dag en morðin voru framin árið 2004. Ekki tókst að finna morðingjann fyrr en í sumar þrátt fyrir að lífsýni hans hafi fundist á vettvangi á sínum tíma. 

Daniel Nyqvist, sem er 37 ára, játaði fljótlega eftir að hann var handtekinn í júní að hafa myrt átta ára gamlan dreng og 56 ára gamla konu í borginni Linköping. Niðurstaða héraðsdóms í dag var að geðsjúkdómur skýri hvers vegna Nyqvist framdi morðin en við réttarhöldin kom fram í máli hans að honum hafi ekki verið sjálfrátt. Þetta hafi verið eitthvað sem hann varð að gera. Nyqvist var dæmdur til vistar á réttargeðdeild. 

Nyqvist segir að tilviljun hafi ráðið því að hann stakk fórnarlömbin til bana að morgni 19. október 2004. Engin tengsl voru á milli fórnarlambanna.

Við rannsókn málsins olli það miklum heilabrotum hjá lögreglu að finna ástæðu fyrir morðunum og morðingjann þrátt fyrir að vera með lífsýni úr honum, morðvopnið, blóðuga derhúfu og lýsingu vitnis á ungum manni með ljóst hár. 

Lögum var breytt í Svíþjóð í ársbyrjun 2019 á þann hátt að heimildir lögreglu til að leita að samsvörun lífsýna var aukin var málið rannsakað að nýju. Ekkert fannst í gagnabanka lögreglu en í sumar var lífsýnið sem fannst á vettvangi borið saman saman við gögn úr vinsælum erfðamengisvef í Svíþjóð. Þar fannst Nyqvist strax og var handtekinn.

Nyqvist var aðeins 21 árs þegar hann framdi morðin og segist hann hafa verið heltekinn af hugsuninni um að myrða einhvern á þessum tíma og fórnarlömbin valin af handahófi.  Drengurinn hafi verið auðveld bráð og stakk Nyqvist hann til bana þegar hann mætti honum úti á götu í miðborg Linköping. Hann hljóp síðan á eftir konunni sem hafði verið vitni að morðinu og stakk hana einnig til bana.

Nyqvist var atvinnulaus einfari sem gerði fátt annað en að spila tölvuleiki heima hjá sér á þessum tíma og fór sjaldan út á meðal fólks. Að sögn lögreglu breyttist líf hans lítið eftir þetta og hefur búið skammt frá Linköping alla tíð.

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert