Undirbúa málshöfðun á hendur Bretum

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið undirbýr nú málshöfðun á hendur breska ríkinu vegna brota á útgöngusamningi sem Breta og Evrópusambandsins. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, greindi frá þessu í dag.

Neðri deild breska þingsins samþykkti í vikunni frumvarp þar sem breskum ráðherrum er gefið vald til að brjóta gegn ákvæðum samkomulagsins, svo sem um ríkisaðstoð til fyrirtækja og að evrópskar reglur skuli enn gilda um vörur á Norður-Írlandi.

Breskir ráðamenn hafa þegar viðurkennt að lögin brjóti gegn samkomulaginu og þar með alþjóðalögum, en bera fyrir sig að hér sé um varnagla að ræða sem aðeins eigi að nýta gegn mögulegum ósanngjörnum hótunum Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hafði gefið Bretum frest fram á miðvikudag, í gær, til að fjarlægja ákvæðin úr lögunum. Nú hefur formlegt bréf verið sent til breskra stjórnvalda, sem gæti endað með því að málið fari fyrir Evrópudómstólinn, æðsta dómstól Evrópusambandsins. Von der Leyen sagði á blaðamannafundinum að bresk stjórnvöld hefðu út nóvember til að bregðast við áhyggjum Evrópusambandsins.

Samningaviðræður milli Breta og Evrópusambandsins halda engu að síður áfram í Brussel í þessari viku, en þar freista aðilar þess enn að ná samkomulagium framtíðartilhögun sambands þeirra eftir að Bretar ganga úr innri markaði Evrópusambandsins um áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert