Lágmarkslaun 3.500 krónur á klukkustund

Þessi nýju lágmarksaun munu snerta um 6% vinnuafls í Genf …
Þessi nýju lágmarksaun munu snerta um 6% vinnuafls í Genf frá fyrsta nóvember og hafa verkalýðsfélög fagnað lögunum ákaflega. AFP

Kjósendur í Genfarkantónu í Sviss hafa nú samþykkt lágmarkslaun í kantónunni sem samsvara tæpum 3.500 krónum á klukkustund. Líklega er um að ræða hæstu lágmarkslaun í heimi, að því er CNN greinir frá. 

Samkvæmt opinberum gögnum voru 58% kjósenda fylgjandi því að lágmarkslaun yrðu 23 svissneskir frankar á klukkustund. Tillagan var studd af samsteypu verkalýðsfélaga sem sögðu hana miða að því að „berjast gegn fátækt, auka jöfnuð og mannlega reisn“.

Engin lög um lágmarkslaun eru í gildi á landsvísu í Sviss en Genf er fjórða kantónan, eða fylkið, af 26 til að kjósa um málið á síðustu árum. Áður hafa kantónurnar Neuchâtel, Júra og Ticino samþykkt lög um lágmarkslaun. 

Þessi nýju lágmarkslaun munu snerta um 6% vinnuafls í Genf frá fyrsta nóvember og hafa verkalýðsfélög fagnað lögunum ákaflega. Félögin segja að um sé að ræða sögulegan sigur sem muni hafa bein áhrif á 30.000 starfsmenn en tveir þriðju þeirra eru konur.

Genf, höfuðstaður Genfarkantónu, er tíundi dýrasti staður veraldar til að búa á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert