Svar Armena sé „árás á aserska borgara“

Tyrknesk stjórnvöld hafa fordæmt það sem þau kalla árásir Armena á óbreytta borgara í borginni Ganja í Aserbaídsjan. Til átaka hefur komið milli Asera og Armena vegna héraðsins Ngorno-Karabahk sem tilheyrir Aserbaídsjan er Armenar gera tilkall til.

„Árásir Armena á óbreytta borgara í asersku borginni Ganja í dag eru ný birtingarmynd þeirrar ákvörðunar Armena að virða ekki alþjóðalög. Við fordæmum þessar árásir,“ segir í yfirlýsingu tyrkneska utanríkisráðuneytisins.

Armenskir aðskilnaðarsinnar segja þó að árásirnar á Ganja, næststærstu borg Aserbaídsjan, hafi verið svar þeirra við árásum aserska hersins á Stepanakert, stærstu borg hins umdeilda Ngorno-Karabahk.

„Ein þjóð, tvö ríki“

Tyrkir eru stuðningsmenn Aserbaídsjan og hafa verið um langa hríð. Oft tala yfirvöld ríkjanna tveggja um Tyrkland og Aserbaídsjan sem eina þjóð í tveimur ríkjum.

Þá upphófust mikil mótmæli í Istanbúl í gærkvöld þar sem bæði Tyrkir og Aserar brenndu armenska fánann og sögðu að Karabahk tilheyrði Aserbaídsjan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert